Hvað er vefræn tilfinningalosun?
SomatoEmotional Release®
Vefræn tilfinningalosun er sál-líkamleg aðferð sem notuð er til að aðstoða líkamann við að losa um vefrænar afleiðingar af áföllum og neikvæðar tilfinningar sem þeim tengjast. Hún byggir á höfuðbeina- og spjaldhryggjarvinnunni en einnig er beitt samtalstækni. Hefur þú upplifað að vera með líkamleg meiðsl sem halda áfram að plaga þig löngu eftir að þau eru gróin?
Það er ekki eins óalgengt og halda mætti. Jafnvel þótt losun verði á líkamlegum
kvillum í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er stundum nauðsynlegt að
losa einnig úr læðingi þær tilfinningar sem liggja á bak við líkamlega
kvillann til að ná fullkomnum árangri og bata. Í þessum tilfellum
hvetur meðferðaraðili til vefrænnar tilfinningalosunar á meðan á
höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð stendur.
Þetta meðferðarform hófst í lok áttunda áratugar síðustu aldar, þegar
Dr. John Upledger og lífeðlisfræðingurinn Dr. Zvi Karni, phD, áttuðu sig á því að líkaminn oft geymir í sér orku t.d. reiði eða hræðslu, sem er afleiðing slysa, meiðsla eða tilfinningalegs áfalls. Áfallið gerir það að verkum að líkaminn geymir orkuna á einhverjum stað í líkamanum og myndar það sem Dr. Upledger kallar orkumein (energy cyst).
Heilbrigður líkami getur aðlagast slíkum orkumeinum en þau valda því að meiri orka fer í alla líkamsstarfsemina. Eftir því sem árin líða minnkar aðlögunarhæfni líkamans og þá koma fram einkenni sem sífellt er erfiðara að horfa framhjá eða halda niðri.
Vefræn tilfinningalosun fer þannig fram að slík orkumein eru fundin, losað er um þau og viðkomandi fer í gegnum áfallið og vinnur þannig úr því
Þessi meðferð hefur reynst afskaplega vel við meðferð á PTSD (Post Traumatic Stress Disorder) eða áfallastreituröskun eins og það er kallað á íslensku.
Nýleg rannsókn sem gerð var í samvinnu við Upledger stofnunina og West Palm Beach Veteran's Administration Medical Center sýndi fram á verulega breytingu á hegðun og líðan 13 fyrrverandi hermanna úr Víetnamstríðinu sem komnir voru út á ysta jaðar í mannlegu samfélagi.