Tildrög þessa verkefnisins er að í febrúar 2007 var haldinn fundur foreldra drengja í 9.bekk sérkennsludeildar Grunnskólans í Grindavík (fimm drengir). Þar ræddum við áhyggjur okkar vegna tímabundins úrræðaleysis í kennaramálum sem hafði mjög truflandi áhrif á drengina okkar. Í framhaldi af fundinum þróaðist sú hugmynd hjá mér að kanna hvort höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð gæti haft jákvæð áhrif á líðan, samskipti og námsárangur nemenda í sérkennslunni.
Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er meðferðform sem meðal annars losar um spennu, slakar á taugakerfinu og örvar flæði.. Mér fannst því tilraunarinnar virði að kanna hvort slík meðferð gæti bætt líðan drengjanna, og jafnvel námsárangur..
Markmið verkefnisins var að kanna eftirfarandi:
Hefur höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð áhrif á eftirfarandi þætti hjá börnum/unglingum með náms- og samskiptaörðuleika:
-
Samskipti – heima og í skóla
-
Andlega líðan (s.s. sjálfstraust, jafnvægi, kvíða, skap)
-
Líkamlega líðan (s.s. verki í höfði, baki, kvið, öxlum)
-
Nám, ( s.s. athygli, einbeitingu, árangur, lesblindu)
Þar sem verkefnið stóð aðeins í fimm vikur var fullmikil bjartsýni að ætla að það gæfi ótvíræða niðurstöðu, enda frekar gert ráð fyrir að það gæti gefið vísbendingar um áhrif meðferðarinnar.
Væri niðurstaðan jákvæð, yrði þetta verðugt verkefni til frekari rannsókna og gott innlegg vegna úrræða fyrir börn sem eru með hinar ýmsu greiningar og eiga undir högg að sækja í grunnskólum landsins.
Þátttakendur voru fimm drengir í 9. bekk sérkennsludeildar grunnskólans, allir fæddir árið 1992. Þeir höfðu allir fengið einhvers konar greiningu, svo sem lesblindu, athyglisbrest og/eða ofvirkni.
Mælikvarðinn var viðtöl við drengina, foreldra þeirra og kennara, bæði í upphafi og lok verkefnisins. Viðtölin voru byggð á spurningum sem tengdust upplifun drengjanna sjálfra, annars vegar samskiptum drengjanna og fjölskyldna þeirra heima fyrir og hins vegar á samskiptum þeirra við kennara, starfsfólk og aðra nemendur í skólanum. Horft var til andlegrar og líkamlegrar líðanar þeirra bæði í upphafi og lok meðferðar, sem og námsárangurs, einbeitingar/athygli og hegðunar.
Hver drengur var meðhöndlaður einu sinni til tvisvar í viku, í 20 - 45 mínútur í senn, í fjórar vikur. Fjöldi skipta og tímalengd meðferðarinnar var persónubundin og fór eftir því hvernig drengirnir voru upplagðir hverju sinni.
Niðurstöðurnar voru misafgerandi eftir því um hvaða þætti var að ræða, en í meginatriðum var niðurstaðan þessi:
Innan skólans – mat kennara. Lítil sem engin áhrif greindust hjá 4 af 5 drengjum. Helst að örlaði á aukinni einbeitingu og úthaldi og bættri hegðun. Ein undantekning var frá þessu en þar urðu jákvæð áhrif á flesta þætti. Átti þar í hlut einstaklingur sem segja má að hafi verið verst settur fyrir.
Innan heimilis – mat foreldra. Verulega góð áhrif greindust á flestum þáttum. Mest bar á jákvæðum áhrifum varðandi innra jafnvægi, sjálfstraust, sjálfsímynd, hegðun og samskipti innan heimilis.
Upplifun drengjanna sjálfra. Talsverð jákvæð áhrif greindust á þætti eins og einbeitingu, líkamlegt ástand, innra jafnvægi, sjálfstraust og samskipti.
Í einu tilfelli ýtti meðferiðin undir ofvirkni, samhliða aukinni kátínu. Í öðru tilfelli ýtti hún undir skapofsa og líkamlega vanlíðan í upphafi en jafnframt jákvæða upplifun á öðrum þáttum (sbr. hér að framan). Algengt var að meðferðin ýtti til að byrja með undir einkenni og undirliggjandi þætti sem unnið var með.
Álykta má samkvæmt þessum niðurstöðum að höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð geti verið mjög gott meðferðarúrræði fyrir börn/unglinga með áðurnefndar greiningar. Höfuðbeina-og spjaldhryggjarmeðferðin ætti að henta vel með öðrum meðferðum, s.s. sálfræði- og ráðgjafameðferð, sjúkraþjálfun og öðrum hefðbundnum og óhefðbundnum meðferðum.
Ætla má að með frekari meðhöndlun gæti meðferðin skilað árangri í skólastarfinu, því meðhöndlun þennan stutta tíma hafði í för með sér bæði bætta líkamlega og andlega líðan drengjanna, sem og bætt samskipti heima fyrir. Þar varð áhrifanna fyrst vart en ætla má að þau skili sér áfram þaðan í skólastarfið.
Ég tel því að niðurstöður verkefnisins hafi gefið vísbendingar um að höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð geti haft góð áhrif á börn/unglinga með náms- og samskipta-örðuleika og yrði verðugt verkefni til frekari rannsóknar.
Hjördís Rósa Halldórsdóttir
Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferðir