top of page

Saga og þróun

Höfuðbeina og spjaldhryggjarmeðferð hefur verið að þróast alla síðustu öld út frá vinnu og uppgötvunum þriggja lækna; A.T. Still, William Sutherland og Dr John E. Upledger. 

A.T. Still (1828-1917) missti þrjú barna sinna þegar þau veiktust  af heilahimnubólgu. Hann áleit þau hafa dáið af meðferðinni en ekki sjúkdómnum sjálfum. Hann hneigðist í átt að náttúrulækningum eftir þá erfiðu reynslu. Hann lagði mikla áherslu á að líkaminn væri ein eining eða heild og að uppbygging líkamans og starfsemi hans væru nátengd. Hann leit á líkamann sem kerfi með sjálflæknandi eiginleika, því minna sem gripið sé inn í starfsemina því betur gangi að læknast. Hann komst einnig að þeirri niðurstöðu að sum lyf væru hættuleg. Hann þróaði bein- og liðskekkjulækningar (osteopathy) og er kallaður faðir osteopathíunnar. Í byrjun tuttugustu aldar stofnaði Still skóla í Osteopathy í Missouri í Bandaríkjunum.

Osteopatinn William Sutherland (1873 -1954) var nemandi A.T Still. Hann er talinn vera upphafsmaður höfuðbeinaliðfræðinnar (Cranial Osteopathy) Hann hafði mikinn áhuga á uppbyggingu höfuðkúpunnar og setti fram kenningar um að hægt væri að hreyfa höfuðbeinin og hafa þannig áhrif á starfsemi heilans og heilatauganna. Sutherland taldi að með því að leiðrétta afstöðu á milli höfuðbeinanna þá lagaðist starfsemi líkamans. 

Dr. John Upledger fékk áhuga á höfuðbeina liðfræði (Cranial Osteopathy) eftir að hafa rekist á taktfastan slátt í mænuvökvanum þegar hann aðstoðaði við skurðaðgerð þar sem fjarlægð var kölkun á utanverðri mænuhimnu í hálsi. Hlutverk hans í skurðaðgerðinni var að halda mænuslíðrinu kyrru á meðan kölkunin var skafin burtu. Dr. Upledger átti í erfiðleikum með að halda slíðrinu kyrru vegna hinnar kröftugu og taktföstu hreyfingar sem í slíðrinu var. Þrátt fyrir að Dr. Upledger væri lærður læknir þá gat hann ekki útskýrt það sem hann hafði orðið vitni að. Þegar hann spurði félaga sína sem unnu með honum að þessari skurðaðgerð um þennan slátt í mænuslíðrinu þá gat enginn þeirra útskýrt þetta fyrir honum. 

Kenningar Sutherlands byggðust á því að höfuðkúpan væri samsett úr mörgum beinum. Beinsaumarnir á milli þeirra væru í raun liðamót og þannig gætu bein höfuðsins hreyfst og verið á hreyfingu alla ævi mannsins. Dr. Upledger tengdi kenningar Dr. Sutherlands við hina taktföstu hreyfingu í mænuslíðrinu sem hann hafði orðið vitni að. Hann setti fram kenningu sem byggðist    á því að innan höfuðsins væri starfandi hálflokað vökvakerfi og einbeitti sér síðan að því að sanna tilveru og starfsemi þessa kerfis. 

Dr. Upledger nam fræði Sutherlands og árið 1975 hóf hann störf við Osteopathic College of Michigan State University sem rannsóknarmaður og prófessor í lífaflsfræði. Þar leiddi hann teymi af líffræðingum, lífeðlisfræðingum og lífefnaverkfræðingum og þróaði CranioSacral meðferðina á árunum 1975 til 1980, eftir mikla rannsóknarvinnu. Ólíkt Cranial Osteopathy gengur CranioSacralmeðferðin út frá því að beinin þjóni og fylgi bandvefnum en ekki öfugt. Niðurstaða Dr. Upledger var sú að árangursrík meðferðarvinna yrði að taka til allra þátta mannsins, jafnt líkamlegra sem andlegra þátta. Maðurinn er ein heild og  það ber að meðhöndla hann sem slíkan. 

Árið 1985 stofnaði Dr. Upledger síðan Upledgerstofnunina (The Upledger Institute). 
Meginmarkmið hennar eru að rannsaka, þróa, kenna og kynna Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð fyrir almenningi og fagmönnum sem starfa við líkamsmeðhöndlun. Stofnunin er kennslu-, rannsóknar- og meðferðarstofnun Upledgerstofnunin er í dag fremst í þróun og meðhöndlun í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð, auk fjölda annarra tengdra aðferða við líkamsmeðhöndlun. Hefur Dr. Upledger verið í fararbroddi þeirra sem þróað hafa CranioSacral meðferðina og var það allt þar til hann dó árið 2012 þá áttatíu ára. 

 


Á þeim tæpu 30 árum sem Dr. Upledger hefur þróað þetta meðferðarform, hafa hann og félagar hans hjá Upledgerstofnuninni    innleitt margt úr kenningum austrænna lækninga, ásamt þekktum aðferðum úr sálarfræðinni, til þess að efla það og styrkja sem sjálfstætt, viðurkennt meðferðarfag. Dr. Upledger hefur einnig skrifað fjölda bóka um CranioSacral meðferðina. Árið 2005 voru yfir 60.000 meðferðaraðilar víðs vegar um heiminn búnir að kynna sér þessar aðferðir með því að stunda nám við Upledgerstofnuna. 

bottom of page