top of page

 

 

 

Andrew Taylor Still fæddist árið 1828 í Bandaríkjunum, nánar tiltekið í landnemabyggðum

Leesýslu í Virginíu. Fjölskyldan var stór og faðir Still annaðist nágranna sína í hinum

dreifðu byggðum Virginíu, Tennesee og Missouri á bæði sál og líkama, enda bæði læknir

og prestur. Landnemalífið kenndi Still sem ungum dreng að meta undur náttúrunnar.

Tímunum saman undi hann sér við náttúruskoðun, hvattur áfram af föður sínum, sem

kenndi og leiðbeindi syninum. Sem sonur farandprests, sem einnig var læknir, kynntist

Still fljótt dekkri hliðum lífsins, þar á meðal sjúkdómum eins og kóleru, bólusótt og

heilahimnubólgu sem þurrkuðu oft út heilu fjölskyldurnar. 


Á unga aldri kynntist hann því skorti á þekkingu á bæði orsökum og meðhöndlun þessara illvígu sjúkdóma. Honum gramdist fáfræðin sem ríkti og taldi að það hlyti að vera hægt að finna betri aðferðir til að glíma við þá. 

Þó Still hefði lengi gert sér grein fyrir vankunnáttu læknisfræðinnar á þeim tíma í þessum efnum, var það harmleikur í lífi hans sem fyrst knúði hann til aðgerða. 

Árið 1874 geisaði drepsótt í Missouri, sem í dag er þekkt sem heilahimnubólga af völdum víruss, og missti Dr. Still þrjú barna sinna af hennar völdum. Þó að hann væri læknir, kunni hann engin ráð til hjálpar og það knúði hann til að leita skýringa. 

Hann hætti að stóla á ríkjandi læknisfræðilegar aðferðir eins og aflimanir, sem þá voru algengar, og óheyrilega lyfjanotkun en hóf í staðinn leit að orsökum þess að sumir veiktust en aðrir ekki. 

Hann kallaði hina nýju læknisfræðilegu aðferð sína osteopathy sem hefur verið þýtt á íslensku sem osteópatía (osteon = bein á grísku, og pathos = sá sem þjáist) af því að hún var byggð á líffærafræði. Hann þróaði greiningaraðferðir sínar og meðhöndlun á þeirri grundvallarskoðun að meðhöndla eigi manneskjuna sem eina heild. Ekki væri hægt að veikjast einhvers staðar án þess að það hefði önnur líkamleg áhrif. Öll líkamskerfin ynnu saman sem ein heild. 

Út frá ítarlegum rannsóknum og athugunum þróaði Still osteópatísku meðferðina sem beitt er beint á stoðkerfið. Hann hætti einnig að nota ýmis eitruð „lyf“ því hann var viss um að flesta sjúkdóma mætti lækna án þeirra. 
Ljóst er að Still hefur þekkt til ýmissa óhefðbundinna meðferðarforma, svo sem hómópatíu, vatnslækninga og fl. Skjalfest er að hann hefur rannsakað margar þeirra, sumum hafnaði hann strax en nýtti sér aðrar, bæði meðvitað og ómeðvitað. 

Þegar Dr. Still vildi kynna hugmyndir sínar og aðferðir fyrir læknasamfélaginu leitaði hann eftir samstarfi við Baker University í Baldwin, Kansas, háskóla sem hann og fjölskylda hans höfðu tekið þátt í að stofna, en var hafnað. Þrátt fyrir það var Dr. Still sannfærður um að hann hefði rétt fyrir sér. Hann flutti til Kirksville í Missouri og byrjaði að stunda osteópatíu þar. Orðstýr hans barst víða og fljótlega tók fólk hvaðanæva að úr Bandaríkjunum að streyma til Kirksville til lækninga hjá honum. 

Eftir því sem frægð Still jókst urðu árásir kolleganna harðari. Hann var kallaður rugludallur eða svindlari og fullyrt að hann hefði tapað sér. En þó Dr. Still væri hæddur af flestum fór sá hópur lækna vaxandi sem löðuðust að kenningum hans. Byrjaði formleg kennsla árið 1892 í Kirksville á aðferðum Dr. Still og varð sá skóli síðar að American School of Osteopathy (ASO). 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


                                                                                                                Fyrsti osteópatíski skólinn árið 1892 

Fyrsti árgangurinn í Kirksville, fimm konur og sextán karlmenn, útskrifaðist árið 1894. Í honum voru m.a. þrjú barna Still og einn bræðra hans. Varð skólinn strax mjög vinsæll. Í ágúst 1894 hófst bygging nýrrar sjúkradeildar við skólann og var hún opnuð í ársbyrjun 1895. Strax tveimur árum síðar var orðið nauðsynlegt að bæta við tveimur nýjum álmum. Við það þrefaldaðist stærð upprunalegu byggingarinnar. Yfir 30 þúsund meðhöndlanir voru framkvæmdar á sjúkradeildinni árið 1895 og á hverjum degi biðu um 400 hundruð manns eftir meðhöndlun. 
 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 


                                                                                                       

                                                                                                                                ASO spítalinn 1906 

Andrew Taylor Still vann við ASO nánast til dauðadags. Hann dó 89 ára gamall, 12. desember 1917. 

 

 

 

 

 

 

 

 

 



                                                                                    Dr. A.T.Still með hjúkrunarnemum árið 1909. 

• Hann var fyrstur til að uppgötva ónæmiskerfið og þróa aðferðir til að örva það á náttúrulegan hátt. 
• Hann var fyrstur til að bjóða konur og minnihlutahópa velkomna í læknaskóla. 
• Hann spáði því að þjóð hans ætti eftir að glíma við mikil eiturlyfjafíknarvandamál ef læknar hættu ekki að ofnota vanabindandi lyf. 
• Hann varaði við því að konur væru allt of oft fórnarlömb tilgangslausra skurðaðgerða. 
• Hann vildi að læknar kynntu sér forvarnir til jafns við lækningar. 
• Hann trúði því að sjúkdómur í einum líkamshluta hefði áhrif á aðra hluta líkamans. 

 

 

Þýtt og endursagt af Netinu.

Andrew Taylor Still
bottom of page