Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð fer fram með þeim hætti að í flestum tilvikum liggur sá er þiggur meðferðina á bekk og er fullklæddur. Meðferðaraðilinn byrjar á að greina hreyfinguna í mænuvökvanum með því að þreifa eftir henni á nokkrum stöðum á líkamanum, finnur hann hvar spenna liggur sem hindrar hreyfinguna. Einnig leitar hann eftir staðbundinni spennu í bandvef. Meðferðin felst í því að losa um spennuna í bandvefnum og því að liðka til fyrir hreyfingu höfuðbeina og spjaldbeins. Síðan eru þessi bein notuð til að toga léttilega í himnurnar sem festast við þau. Þannig næst að losa um spennu í þessu himnukerfi.
Algengt er að þessi meðferð taki um klukkustund í senn en það er mjög misjafnt eftir einstaklingum hve oft þarf að koma til að liðka vel um kerfið. Langflestir finna fyrir verulega bættri líðan á fyrstu 1-3 skiptunum. Einnig hafa mjög margir gert þessa meðferð að reglubundnum þætti í sinni heilsueflingu.
Yfirleitt er notaður léttur þrýstingur eða tog sem hefur að markmiði að meta og meðhöndla himnurnar sem umlykja miðtaugakerfið. Þessi meðferð vinnur með líkamanum í að auka eigin getu til að efla starfsemi miðtaugakerfisins, minnkar neikvæðar afleiðingar streitu, eflir almennt heilsufar og eykur viðnám gegn sjúkdómum.