-
gr.
Nafn og varnarþing
Félagið heitir CranioSacral félag Íslands (CSFÍ) Heimili þess og varnarþing er hjá formanni félagsins hverju sinni.
2. gr.
Tilgangur félagsins
Tilgangur félagsins er:
Að koma á framfæri og vinna að eflingu Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferðar (UHSM) með því að greiða fyrir reglulegu sambandi og upplýsingamiðlun milli félagsmanna og milli félagsins og annarra starfsgreina, samtaka, einstaklinga og almennings.
Að stuðla með öllum viðeigandi ráðum að þróun og auknum skilningi á UHSM.
Að ákveða og viðhalda gæða- og meðferðarstöðlum UHSM á Íslandi.
Þess er vænst að allir félagsmenn vinni að framgangi markmiða og hagsmunamála félagins og efli áhrif þess eftir bestu getu.
Að vinna að hverskonar menningarmálum og hagsmunamálum félagsmanna.
3. gr.
Reglur um aðild
CranioSacral félag Íslands er systurfélag CranioSacral Society í Bretlandi og Bandaríkjunum en starfar að öllu leyti sem sjálfstætt félag.
Félagsaðild:
Fullgild almenn aðild er heimil öllum þeim sem hafa lokið Upledger CSTI og CSTII. Þeir félagar sem ætla að sækja um að gerast skráðir græðarar þurfa einnig að hafa lokið SERI, SERII og AdvI, og hafa jafnframt aðra fagmenntun á heilbrigðissviði, óhefðbundna eða hefðbundna, eða hafa tekið þau grunnfög á heilbrigðissviði sem CSFÍ og Bandalag íslenskra græðara samþykkja.
Umsókn um félagsaðild
Umsækjandi um félagsaðild gerur sótt um aðild með tölvupósti á netfang félagsins eða með útfylltu umsóknareyðublaði CSFÍ með almennum pósti sem senda skal á formann félagsins.
Félagsmönnum er skylt að gæta fyllstu þagmælsku um öll einkamál sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu nema lög bjóði annað. Þagnarskylda helst þótt félagi láti af störfum og einnig þótt sá sem notið hefur þjónustu viðkomandi félaga sé fallinn frá. Um vitnaskyldu félaga gilda ákvæði læknalaga.
4. gr.
Skipun og hlutverk stjórnar, starfsreglur ofl.
Skipun og hlutverk
Stjórn CranioSacral félags Íslands skal kosin á aðalfundi. Stjórnin skal skipuð 3 mönnum og 2 varamönnum. Formaður skal kosinn sérstaklega til tveggja ára. Aðrir stjórnarmenn og varamenn skulu kosnir til tveggja ára í senn, þannig að árlega skulu kosnir tveir aðalmenn og einn varamaður og jafnmargir gangi úr stjórn.
Ákvarðanataka á stjórnarfundum
Meirihluti atkvæða ræður í málum sem upp eru borin. Hver stjórnarmaður hefur eitt atkvæði. Fundur hefur tilskilinn meirihluta þegar þrír stjórnarmenn eru viðstaddir nema fjöldi fundarmanna standi á jöfnum tveim þá hefur formaður tvöfalt vægi.
Fundargerðir
Stjórnin lætur halda fundargerðir um alla fundi stjórnar og þar eiga að koma fram nöfn allra fundarmanna og skrá um allar ályktanir og framvindu mála á hverjum fundi. Eitt afrit skal varðveita á skrifstofu félagsins og annað hjá ritara þess.
Félagsmenn skulu hafa aðgang að samþykktum fundargerðum stjórnar !
Reglur og samþykktir
Stjórnarmenn eiga að kynna félaginu allar reglur og samþykktir sem gerðar eru varðandi starf félagsins. Aðalfundur getur breytt eða hnekkt reglum og samþykktum eða bætt við þær.
Seta stjórnarmeðlima
Formaður má sitja þrjú kjörtímabil samfellt. Seta í stjórn skerðir ekki rétt til kjörgengis til formanns. Sá sem gengur úr stjórn má gefa kost á sér á ný eftir tvö ár. Kjósa skal tvo skoðunarmenn til tveggja ára í senn. Prókúruhafi er gjaldkeri félagsins og eða formaður.
Stjórnin skal koma saman til fundar ekki sjaldnar en þrisvar sinnum á fjárhagsárinu til að rækja störf félagsins. Daglega stjórn félagsins annast formaður CSFÍ. Stjórn skal skipa siðanefnd, 3 menn og einn til vara á fyrsta stjórnarfundi, eftir aðalfund.
Kostnaður stjórnar
Greiða má stjórnarmönnum og nefndarmönnum allan ferða-, hótel og annan kostnað sem þeir kunna af eðlilegum ástæðum að verða fyrir vegna þátttöku á aðalfundi, stjórnarfundum eða í nefndarstarfi stjórnarmanna og við skyldustörf í þágu félagsins.
5. gr.
Félagsgjöld
Aðalfundur ákvarðar árlegt félagsgjald að fengnum tillögum Stjórnar og eða félagsmanna.
Félagsárið er almanaksár. Meðlimir greiða árlegt gjald sem gjaldfellur 1. mars, ár hvert.
6. gr.
Riftun félagsaðildar
Félagsaðild má rifta eins og hér segir: Félagsmaður getur hvenær sem er sent skriflega úrsögn til stjórnar. Félagsgjöld verða ekki endurgreidd. Félagsmaður sem er í vanskilum með félagsgjöld er ekki kjörgengur á aðalfundi.Hafi félagsmaður ekki greitt félagsgjöld síðastliðin tvö ár fellur hann sjálfkrafa út af félagaskrá og telst ekki fullgildur félagi. Stjórn skal gera viðkomandi viðvart með þriggja mánaða fyrirvara. Hafi félagsmaður orðið uppvís að faglegu misferli getur stjónin ákveðið að svipta hann aðlild að félaginu. Félagsmaður getur áfrýjað sviptingunni til siðanefndar.
7. gr.
Kærumál og agareglur
Kæra má félagsmann til stjórnar ef talið er að framferði hans skaði hagsmuni UHSM eða CSFÍ.
Stjórnin getur einhliða látið fara fram fulla rannsókn á kærumáli. Niðurstöður rannsóknar á að birta skriflega þeim félagsmanni sem í hlut á ásamt þeim ráðstöfunum sem kunna að vera gerðar. Niðurstöðurnar skulu einnig kynntar kærendum.
Sérhver félagsmaður sem sætir rannsókn getur skotið máli sínu skriflega til siðanefndar innan fjórtán daga frá því honum berst í hendur ákvörðun stjórnar. Þegar full rannsókn hefur farið fram og hún er viðhlítandi að mati siðanefndar, þar á meðal málsmeðferð vegna áfrýjunar, tekur siðanefnd endanlega ákvörðun og ekki er hægt að áfrýja aftur.
8. gr.
Aðalfundur
Aðalfundir og ályktanir
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum CSFÍ á Íslandi. Félagsmenn skulu fá fundarboð með minnst 14 daga fyrirvara. Aðalfundurinn er löglegur hafi löglega verið til hans boðað
Aðalfundur skal haldinn ár hvert eigi síðar en 30 Apríl. Stjórnin boðar til aðalfundar og undirbýr hann, leggur fyrir endurskoðaða reikninga síðasta árs, hefur umsjón með eigum félagsins og gætir hagsmuna þess í öllum greinum.
Í upphafi aðalfundar skal kjósa sérstakan fundarstjóra og ritara eftir tilnefningu. Fundarstjóri og fundarritari skulu gera fundargerð aðalfundar.
Dagskrá aðalfundar skal vera:
1. Fundarsetning
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara
3. Fundargerð síðasta aðalfundar borin upp til samþykktar
4. Skýrsla formanns
5. Reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar
6. Inntaka nýrra félaga (látinna félaga minnst)
7. Afgreiðsla tillagna til lagabreytinga og þær lagðar fram
8. Ákveðið félagsgjald
9. Kosning formanns
10. Kosning stjórnarmanna
11. Kosning varamanna í stjórn
12. Kosning tveggja skoðunarmanna
13. Önnur mál
14. Fundarslit.
Aðrir félagsfundir
Aðrir félagsfundir skulu boðaðir með minnst 14 daga fyrirvara. Stjórninni er skylt að halda félagsfund innan 14 daga, ef 1/10 félagsmanna óskar þess skriflega.
Fjöldi funda
Stjórnin kallar saman félagsfundi eins og ástæða þykir til.
9. gr.
Reikningar
Reikningsár samtakanna er almanaksárið. Stjórnin skal leggja fram árlegt reikningsuppgjör. Skoðunarmenn félagsins fara yfir reikninga og staðfesta þá. Endurskoðaðir reikningar skulu lagðir fram á aðalfundi ár hvert.
10. gr.
Breytingar á lögum
Til breytinga á lögum þessum þarf 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi. Tillögum til lagabreytinga skal skilað til stjórnar eigi síðar er 15 janúar. Stjórn skal senda tillögurnar með fundarboði aðalfundar til félagsmanna til kynningar.
11. gr.
Slit félagsins
CSFÍ verður aðeins lagt niður samkvæmt lögum þessum að lokinni löglegri atkvæðagreiðslu á tveimur aðskildum aðalfundum. Ef leggja á félagið niður þurfa minnst ¾ hluta atkvæða að samþykkja tillögu þess efnis á aðalfundi. Hafi slík tillaga verið samþykkt, skal gera öllum félagmönnum grein fyrir henni í fréttatilkynningu og tillagan látin ganga til næsta auka aðalfundar. Verði tillagan samþykkt aftur með minnst ¾ hluta atkvæða er það fullgild ákvörðun að félagið skuli lagt niður. Verði félagið lagt niður skulu eignir þess varðveittar þar til sambærilegur félagsskapur rís með sambærileg markmið.
Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi, dags. 20. apríl 2002
Reykjavík, mars 2002.
Laganefnd CranioSacral félags Íslands:
Hanna Jósafatsdóttir
Ólafur Þór Jónsson
Hallfríður María Pálsdóttir
Breytingar voru samþykktar á aðalfundi, dags. 19. apríl 2010
Breytingar voru samþykktar á aðalfundi 16.05.2018