top of page

Höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð í vatni!

Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð hefur notið mikilla vinsælda hér á landi síðustu árin og er orðið nokkuð þekkt meðferðarform. Unnið er með og losað um spennu og hindranir í himnukerfi (bandvef) líkamans. 
Himnur umlykja alla vefi í líkama okkar, bæði vöðva, bein, líffæri, æðar, taugar og hverja frumu í líkamanum. Þegar við verðum t.d. fyrir áverka, höggum, sýkingu eða tilfinningalegum áföllum, getur myndast spenna, bólgur og samgróningar í himnum líkamans. 

Þegar spenna eða samgróningar eða aðrar hindranir eru í himnu veldur það álagi/verkjum á staðnum en einnig getur það valdið spennumynstri eða togi á aðra staði í líkamanum. Þannig eru ekki bara verkir eða önnur einkenni á þeim stað sem áverkinn er, heldur geta þróast einkenni annarsstaðar í líkamanum sem afleiðing.  
Í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er metið hvar vandamál eru í líkama og greint hvar orsökin liggur. Notuð eru ákveðin handbrögð og tækni til að losa um hindranirnar, hvort sem það er spenna, samgróningar, bólgur eða annars konar stíflur.  Greint er ójafnvægi í höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfinu og það leiðrétt. (Með höfuðbeina- og spjaldhryggjarkerfinu er átt við höfuðbeinin, spjaldhrygginn, heila- og mænuhimnurnar, heila- og mænuvökvann og þá vefi sem taka þátt í framleiðslu og frásogi á heila- og mænuvökva).  
Ef ójafnvægi er í þessu kerfi hefur það víðtæk áhrif á líkamann, því er það mjög áhrifarík meðferð að koma þessu kerfi í jafnvægi. Við erum að vinna með miðtaugakerfið sjálft og einnig að slaka á himnum um mænu og taugarætur sem hefur jákvæð áhrif á líkamann allann, því taugarnar þjóna honum öllum. 

Meðferðin vinnur þannig djúpt á miðtaugakerfi líkamans, slakar á ósjálfráða taugakerfinu, og það að losa um himnukerfið bætir orku og vökvaflæði líkamans, auk þess sem meðferðin gengur út á að losa um bældar tilfinningar sem tengjast spennu í vefjum hans (vefræn tilfinningalosun).  
 

Hvernig nýtist Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð íþróttafólki?

Þetta meðferðarform er frábær aðferð til að fyrirbyggja meiðsli og einnig ein besta aðferðin til að hvetja og styðja við sjálfsheilunarferli líkamans. Mjög gott er að fara reglulega í þessa meðferð til að hjálpa líkamanum að losa um spennu og vandamál sem safnast upp ekki síst við erfiða íþróttaiðkun. Meðferðin kemur í veg fyrir að spenna safnist upp og minnkar þannig líkur á meiðslum.  
Einnig eru ákveðnir þættir í meðferðinni sem lækka spennu í ósjálfráða taugakerfinu (sympatíska kerfinu), sem ekki bara eykur líkamlega slökun heldur  slakar einnig á andlegri spennu og kvíða, t.d. fyrir keppni eða próf.  
Við meiðsli er algengt að um skaða á himnukerfi líkamans sé að ræða. T.d. tognanir, snúningar, bólgur, rof eða blæðingar í hinum ýmsu himnum líkamans, s.s. vöðvahimnum, sinum, liðböndum, liðpokum o.s.frv.  Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð  gengur út á að vinna með skaða í himnukerfi líkamans. 
Himnan er uppbyggð m.a. af trefjum og teygjuefni. Teygjuþátturinn (elastín) í  himnunni gerir það að verkum að himnan leyfir ákveðið tog og trefjarnar (collagen) gefa henni styrk, þannig að himnan skaðast ekki þrátt fyrir t.d. eðlilegan vöxt eða jafnvel óeðlilegan (bólgur og æxli).  
En eins og íþróttamenn vita þá er oft um álag og ofnotkun að ræða sem gerir það að verkum að himnan gefur sig.  
Með ákveðnum handbrögðum þá gengur þetta meðferðarform út á að hjálpa himnunni að vinda ofan af snúningi og tognunum, minnka bólgur og losa um afleiðingar af höggi, ef um slíkt er að ræða. Auk þess býr þetta meðferðarform yfir þeim kosti að geta losað um gömul meiðsl. Oft valda gömul meiðsl, t.d. (samgróningar, spenna, langvinnar bólgur eða önnur vandamál), afleiddum vandamálum annars staðar í líkama. 
Þó gamla vandamálið sé án einkenna getur það þannig verið að valda óskýrðum verkjum, stirðleika eða annarri vanstarfsemi annars staðar í líkamanum. Þetta er vegna þess að himnukerfi líkamans er ein heild frá hvirfli til ilja, frá frumu til húðar. Þannig að þegar spenna myndast á einum stað þá myndast frá henni tog sem getur verið að valda afleiddu einkennunum.  
Upledger höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð býr yfir greiningaraðferðum sem gera meðferðaraðilanum kleift að finna rót vandans. Þannig er ekki aðeins einkennið meðhöndlað heldur er orsökin leituð uppi og meðhöndluð.  
Með því að fara reglulega í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð er þannig hægt að koma í veg fyrir að gamlir skaðar taki sig upp, losa um gamla skaða sem hugsanlega eru að valda einhverjum vandamálum, losa um kvíða og andlega spennu og auka liðleika himnukerfisins sem lágmarkar hættu á sköðum.  
Þegar um óeðlilega vöðvaspennu er að ræða t.d. of háa vöðvaspennu (spastíska vöðva) þá er gott að fara í þessa meðferð.  
Ákveðnar aðferðir í meðferðinni hjálpa til að slaka á of hárri vöðvaspennu og slaka á ósjálfráða taugakerfinu. Þegar langvarandi of há vöðvaspenna er til staðar þá er tilhneiging til styttinga í himnum sem umlykja vöðva og sinar.  

Að sjálfsögðu eru vöðvateygjur mikilvægar, en sú aðferð sem höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð byggir á, gengur út á að himnan vindi sjálf ofan af spennunni og leitar í þau teygjumynstur sem hún þarf á að halda. Meðferðaraðilinn hlustar með höndum sínum á vefinn og styður við og fylgir eftir. Þannig næst mikill árangur og venjulega án sársauka, þar sem unnið er með vefnum í stað þess að vera að stjórna vefnum.  
 

Kröftug meðferð í vatni.


Þegar spenna, samgróningar eða aðrar hindranir eru í vefnum þá fer líkaminn að vinda ofan af sér. Þá fara af stað hreyfingar sem hvorki meðferðaraðili, né sá sem verið er að meðhöndla kannast við að vera að framkvæma. Hlutverk meðferðaraðila er að fylgja eftir og styðja við þessar losanir. 
Ein af ástæðum þess hve kröftugt það er að vinna með höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð í vatni er að í vatni getur líkaminn hreyfst frjálst og óhindrað eins og í þrívídd. Í vatninu er auðveldara er að ná til hindrana sem liggja djúpt inni í líkamanum, þar sem hann getur undið sig og snúið og komist í þær stöður sem þarf til að ná til hindrananna. Til að losa um hindrun, leitar líkaminn oft í þá líkamsstöðu sem hann var í þegar hann lenti í því líkamlega og/eða andlega áfalli sem orsakaði hindrunina. 

Í vatni virkar meðferðin mun kröftugar en þegar unnið er á meðferðarbekk. Það er eðlilegt manninum að líða vel í vatni og það hefur lengi verið viðurkennt sem ákjósanlegt umhverfi til heilunar. Þetta er frábært umhverfi og hæfni meðferðaraðilans nýtist margfalt því vatnið hjálpar líkamanum til þess að auðvelda  dýpri losanir á hindrunum í efnislíkama. Einnig losanir á tilfinningum.  

Nú er komið á annað ár þar sem nokkrir meðferðaraðilar hafa boðið reglulega upp á meðferðir í vatni. Skjólstæðingar hafa verið bæði fatlaðir og ófatlaðir með ýmiskonar vandamál. Hefur meðferðin gefið mjög góðan árangur, og árangur sem á stundum hefur verið vonum framar.   
Það er trú okkar að höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð í vatni eigi eftir að verða mjög vinsælt og kröftugt meðferðarform. 
Vegna heita vatnsins hér á landi á Ísland eftir að vera í sérstöðu hvað þetta meðferðarform varðar.  
Upledger stofnunin á Íslandi býður upp á nám í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð og þar er hægt að taka námsáfanga í að meðhöndla í vatni.  


Erla Ólafsdóttir sjúkraþjálfari 

www.upledger.is

bottom of page